Tíu þingmenn fjögurra flokka hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um eflingu atvinnu og samfélags á Suðurnesjum. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, en meðflutningsmenn hennar eru níu talsins og koma frá Bjartri framíð, Vinstri grænum, Pírötum og Samfylkingunni.

Þannig er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig megi efla atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum. Skal starfshópurinn skila niðurstöðum eigi síðar en 1. apríl 2005.

Í greinargerð með tillögunni segir að það sé mat flutningsmanna hennar að nauðsynlegt sé að leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun af þessu tagi fyrir svæðið þar sem útlistuð verði skipulega framtíðaráform um uppbyggingu og hvernig best megi styrkja þætti eins og hag barna, menntun, menningu, nýsköpun, atvinnulíf og samfélagslega innviði til að stuðla að betra samfélagi fyrir íbúa svæðisins.

Segir einnig að löngu sé orðið tímabært að tekið sé á málefnum Suðurnesjabúa með skipulögðum hætti þar sem íbúar hafi undanfarinn áratug orðið fyrir miklum áföllum sem reynst hafi erfitt að yfirvinna. Brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi valdið straumhvörfum í atvinnulífi á Suðurnesjum þegar 600 störf voru lögð niður. Einnig hafi þau orðið illa úti í efnahagshruninu og atvinnuleysi hafi aukist gríðarlega.