Nasdaq tilkynnir um samstarf við Allbright Foundation sem er ópólitísk og óhagnaðardrifin stofnun sem vinnur að því að auka jafnrétti og fjölbreytni í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Markmiðið með samstarfinu er efla kynjajafnrétti og fjölbreytni í skráðum félögum sem og óskráðum félögum.

Saman munu Nasdaq og Allbright vinna að því að búa til fræðsluefni og -áætlun sem verður kynnt á árinu 2021 og snýr að því að aðstoða félög á Norðurlöndunum við að efla fjölbreytni og kynjajafnvægi í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Fræðslan miðar m.a. að því að hjálpa fyrirtækjum að koma auga á hvernig jafnrétti og fjölbreytni geta stutt við vöxt þeirra.

Þá verður fjallað um hvernig takast skuli á við ómeðvitaða hlutdrægni (e. unconscious biases), hvernig hægt sé að breyta ráðningarferlum og af hverju gagnsæi hvað varðar jafnrétti og fjölbreytni er fjárfestum mikilvægt.

„Jafnrétti kynja og fjölbreytni innan fyrirtækja gerir þau betri og það er samhugur meðal samstarfsaðilanna um að breiða út þann boðskap til að knýja fram breytingar,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.

„Með samstarfinu vonumst við til að geta lagt okkar af mörkum til framþróunar í þessum málum, bæði með því að tala fyrir þeim og með mælanlegum aðgerðum sem beinast bæði að félögum sem eru skráð á markaði en einnig að þeim sem eru óskráð. Aukið gagnsæi um starfsemi fyrirtækja dregur að stærri og fjölbreyttari hóp af fjárfestum og ýtir undir öflugri vöxt í efnahagslífinu.“

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn tóku gildi árið 2013 hér á Íslandi. Í þeim var gert ráð fyrir því að við lok árs 2013 yrði hlutfall karla eða kvenna í stjórnum að minnsta kosti 40 prósent.

Samkvæmt Jafnvægisvog FKA er hlutfall kvenna í stjórnum hundrað stærstu fyrirtækja landsins einungis 26,5% og hefur ekki aukist undanfarin ár. Mælingar er varða annars konar fjölbreytni (t.a.m. varðandi þjóðerni eða erlendan bakgrunn, kynþátt, kynhneigð eða kynvitund) eru ekki aðgengilegar hér á landi.

„Saman munum við fræða og eiga í virku samtali við félög um jafnrétti og fjölbreytni til að þau geti sem best virkjað og nýtt hæfileika allra," segir Amanda Lundetak, forstjóri Allbright.

„Að verkefnið sé rekið af kauphöll en nái einnig til félaga sem eru óskráð þýðir að okkar vinna getur skilað meiri árangri, sem eykur líkurnar á því að munum sjá raunverulegar breytingar. Og breytinga er þörf.“

Nasdaq er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð fyrirtækisins af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu á að gera viðskiptavinum félagsins kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika.