State Street Global Advisors (SSgA), eitt stærsta eignastýringafyrirtæki í heimi, hyggst ekki minnka eign sína í skuldabréfum frá fjárfestingalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac.

Eins og fjallað hefur verið um hröpuðu hlutabréf Fannie og Freddie um meira en 40% í síðustu viku þegar greip um sig ótti um að sjóðirnir hefði ekki yfir nægu fjármagni að ráða.

Sjóðir SSgA nema um 2 billjónum Bandaríkjadala. Reuters hefur eftir stjórnanda þeirra að hann hafi ekki trú á að Fannie og Freddie fari á hausinn. „Lánasjóðirnir Fannie og Freddie eru of mikilvægir til að fara á hausinn,“ sagði hann.

Fannie Mae og Freddie Mac eiga eða tryggja 5 billjarða af húsnæðislánum, eða um helming allra slíkra lána í Bandaríkjunum. Erlendir seðlabankar, aðallega í Asíu, eiga skuldabréf sem Fannie og Freddie hafa gefið út fyrir samtals um 979 milljarða dala.