Hópur fjárfesta hefur á síðustu vikum sýnt því áhuga að kaupa meirihluta í Fáfni Offshore. Greint er frá þessu í DV , en þar segir að ekki hafi fengist upplýsingar um hverja sé að ræða né hvaða hluthafa þeir vilji kaupa út.

Samkvæmt heimildum DV eru eigendur danska sjávarútvegsfyrirtækisins Sirena A/S, sem á 2,8% hlut í Fáfni í gegnum dótturfélag sitt Optima Denmark ApS, óánægðir með samskipti sín við stjórnendur Fáfnis. Fyrirtækið rekur sérútbúna fimm milljarða króna olíuþjónustuskipið Polarsyssel.

Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis og framkvæmdastjóri Akurs, stærsta eiganda fyrirtækisins, vildi ekki svara blaðamanni DV hvort tilboð í ráðandi hlut í fyrirtækinu hefði borist. Boe Spurré, framkvæmdastjóri Sirena, vildi heldur ekki svara spurningum blaðsins. Aftur á móti hafnaði Jóhannes því ekki að tilboð hefði borist og Boe ekki að fyrirtæki hans hefði lýst áhuga á að auka hlutafé sitt í Fáfni.