Alþingi hefst að nýju 11. september nk., eftir rúmar tvær vikur. Þetta verður síðasti vetur núverandi ríkisstjórnar en að öllu óbreyttu verður gengið til kosninga í lok apríl nk. Fyrir utan hefðbundin þingstörf, sem eru þó á köflum allt annað en hefðbundin miðað við það sem á undan er gengið á þessu kjörtímabili, þá munum við í vetur sjá prófkjör og uppstillingar lista hjá öllum flokkum, ný framboð og landsfundi þeirra stjórnmálaflokka sem þegar eru starfandi með tilheyrandi formanns- og varaformannsframboðum, ályktunum og stefnumótun.

Það er því óhætt að segja að það sé spennandi og áhugaverður vetur framundan, þó ekki sé nema fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálum.

Það sem er athyglisverðast í þessu öllu saman er að velta upp mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi að loknum kosningum. Samkvæmt nýlegum Þjóðarpúlsi Capacent er núverandi ríkisstjórnarmeirihluti kolfallinn — og hefur reyndar verið síðan frá áramótum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun þó vera mikill vilji — svo vægt sé til orða tekið — til þess innan þingsins að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum að loknum kosningum. Það veltur auðvitað að miklu leyti á því hvort einhverjar mannabreytingar verða á forystu flokkanna fyrir kosningar en þar er helst horft til þess að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, láti af embætti en hún er sögð mjög afgerandi í þeirri afstöðu sinni að mynda alls ekki stjórn með Sjálfstæðisflokknum verði hjá því komist.

Sama viðhorf er uppi innan raða VG, þ.e. að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Framsóknarflokkurinn opnari fyrir því að starfa með Sjálfstæðisflokknum og margir horfa til þessara tveggja flokka í mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi. Það er ekkert launungarmál að Framsóknarflokkurinn er fyrsti valkostur Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnarsamstarfi en það þýðir ekki endilega að sama viðhorf ríki innan Framsóknar. Ofan í þetta allt saman er alls ekki víst að þessir tveir flokkar nái meirihluta en hann er tæpur skv. könnunum.

Nánar er fjallað um stjórnarsamstarfið og komandi kosningavetur, sem verður síðasti vetur þessa kjörtímabils, í úttekt í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.