*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 20. júlí 2021 19:04

Vilja einfalda kerfi spítalans

Hugbúnaðarfyrirtækið Leviosa vinnur að þróun tölvuforrits sem ætlað er að auka þann tíma sem starfsfólk ver með sjúklingum.

Jóhann Óli Eiðsson
Matthías Leifsson (t.v) og Davíð Björn Þórisson.

Hugbúnaðarfyrirtækið Leviosa vinnur að þróun tölvuforrits sem ætlað er að draga úr tíma sem heilbrigðisstarfsfólk neyðist til að eyða við skráningu upplýsinga í tölvukerfi. Eftir tveggja ára þróun liggur fyrir smáforrit sem er tilbúið til notkunar og eru prófanir með það inni á ákveðnum deildum sjúkrahúsa landsins að fara af stað.

Mennirnir að baki Leviosa eru Davíð Björn Þórisson og Matthías Leifsson. Sá síðarnefndi er hagfræðingur en sá fyrrnefndi hefur starfað sem læknir á bráðamóttökunni í rúmlega áratug. Það var einmitt þar sem hugmyndin kviknaði.

Í starfi sínu tók Davíð eftir því að frá þriðjungi vinnustunda, stundum allt upp í tvo þriðju, gat farið í að skrá upplýsingar inn í hin og þessi kerfi spítalans. Slíkt þýðir, eðli málsins samkvæmt, að minni tími gefst fyrir starfsfólk til að sinna þeim sem þurfa á þjónustu að halda, ellegar að starfsfólk vinni lengur og færi upplýsingar inn í kerfin utan hefðbundins vinnutíma. Fyrri kosturinn þýðir lakara þjónustustig og minni  framleiðni í kerfinu en sá síðari þýðir aukið álag á starfsfólk.

Könnun stofnenda meðal heilbrigðisstarfsfólks leiddi í ljós að starfsfólk sjúkrahúsa hér í borg ver að meðaltali um helmingi vinnutíma síns í sjúkraskráningu en í einhverjum tilfellum er hlutfallið enn hærra. Markmið stofnendanna er að forritið geti minnkað þann tíma um helming. Gefum okkur að það markmið náist ekki nema að um hálfu leyti, þá þýðir það samt sem áður að um 580 þúsund vinnustundir á sjúkrahúsum bætast við tíma sem varið er í að sinna sjúkum í stað vinnslu í tölvu.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom nýverið út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér.

Stikkorð: Leviosa