Þann 14. mars árið 2017 undirrituðu Fjarskipti hf. (Vodafone) og 365 miðlar hf. samning um kaup á rekstrarhluta og nánar tilgreindum eignum 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour. Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupin með tilteknum skilyrðum í byrjun október í fyrra og í lok nóvember sama ár greindi Vodafone frá því að kaupin hefðu gengið í gegn. Í kjölfar samrunans breyttist nafn félagsins í Sýn og framundan var umtalsverð vinna við að samþætta starfsemi fyrirtækjanna sem runnu saman í eitt. Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, segir að samruninn hafi heilt yfir gengið vel en samþættingin hafi þó gengið hægar en gert var ráð fyrir.

„Það er ágætt að hafa það í huga hvernig þessi samruni er í eðli sínu. Þetta voru í raun eignakaup en ekki yfirtaka á lögaðila, sem gerði það að verkum að við höfum þurft að samþætta allt mjög hratt. Það má segja að árið 2018 hafi í rauninni verið algjör sprengja í samþættingu fyrirtækjanna sem sameinuðust í eitt. Þessi samþætting hefur gengið vel en hefur að sama skapi sett mikla pressu á bjargir fyrirtækisins meðan á henni stendur og verið hægari en við vonuðumst eftir. Það hafa komið upp hlutir sem við bjuggumst ekki við sem hafa hægt á ferlinu.

Það hafa komið upp óvæntir hlutir en það sem hefur gengið hvað best er starfsmannaþátturinn. Starfsfólk hefur verið frábært og mjög jákvætt fyrir þessum samruna. Það sem hefur gengið hægar en vonast var eftir er þessi tæknilegi þáttur, öll þessi tæknilegu verkefni og kostnaður því samfara. Við ætluðum að vera komin lengra í ferlinu eftir sumarið og það voru því fleiri verkefni eftir en vonir stóðu til þar sem tímalínur röskuðust. Þetta kom okkur á óvart en eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að búast við því að þetta tæki aðeins lengri tíma miðað við stærð verkefnisins. En ég tel að þegar við horfum til baka eftir til dæmis þrjú ár, þá munum við telja að þetta hafi gengið mjög vel. En í dag eru auðvitað fullt af hlutum sem hafa komið upp og gengið á, og kostað peninga. En það góða er að svo verðum við allt í einu búin með þessa samþættingu vegna þess hversu hratt við höfum unnið þetta og hvað þetta er umfangsmikið núna."

Vilja einfalda líf viðskiptavina

Eftir áðurnefndan samruna varð til fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn. Á fjarskiptamarkaði, þeim markaði sem fjarskiptahlið fyrirtækisins (Vodafone) keppir á, ríkir mikil samkeppni og þónokkur fjöldi fyrirtækja er að bítast um að fá fólk og fyrirtæki í viðskipti til sín. Spurður um hvað Vodafone reyni að gera til að skara fram úr á sínum markaði, segir Stefán að hann trúi því að á endanum vilji viðskiptavinurinn fá góða vöru á góðu verði.

„Við teljum að viðskiptavinurinn sé í auknum mæli að biðja um lausnir en ekki tæknilegar skilgreiningar á til dæmis gagnamagni. Viðskiptavinurinn vill geta haft litlar áhyggjur af þessari nauðsynlegu grunnþjónustu og okkar nálgun, hvort sem það er á einstaklings- eða fyrirtækjahliðinni, er að veita viðskiptavininum góðar lausnir sem hafa góð áhrif á lífsgæði fólks og samkeppnishæfni fyrirtækja. En það er vissulega hörð samkeppni á fjarskiptamarkaði, sem er skemmtilegt en sömuleiðis krefjandi. Við þurfum að vera í stöðugri þróun samhliða breyttum þörfum og kröfum.

Hluti af þessari hugsun er að bjóða breiðari lausnir. Til dæmis eins og að bjóða áskriftarpakka af sjónvarpi með fjarskiptum. Það sama á við um fyrirtækin en þar erum við meðal annars að byggja ásamt fleirum gagnaver til að geta boðið hagkvæma og örugga hýsingarþjónustu innan höfuðborgarsvæðisins. Við höfum einnig verið að vinna í samstarfi við viðskiptavini okkar að lausnum sem byggja á interneti hlutanna (IoT). Slíkar lausnir gera fyrirtækjum kleift að bæði auka hagkvæmni rekstrar og bæta þjónustu við viðskiptavini sína á sama tíma. Við leitumst því við að aðstoða viðskiptavini okkar við að nýta fjarskiptatæknina sem er í örri þróun þannig að þeir nái enn betri árangri í sínum rekstri.

Á fyrirtækjahlutanum þá er það þannig að fjarskipta- og tölvutæknin er ofsalega mikilvæg fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja og mikilvægt að beita þessum lausnum rétt. Þess vegna erum við í auknum mæli farin að vinna náið með viðskiptavinum okkar við að finna réttu samstarfsaðila í fjarskipta- og tölvutækni sem henta þeirra rekstri. Ef viðskiptavinir okkar eru svo ánægðir með lausnirnar, þá eru þeir ánægðir viðskiptavinir sem verða áfram hjá okkur. Svo breytist ytra umhverfið stöðugt þannig að við þurfum á hverjum tíma að reyna að vera með spennandi og góða þjónustu í boði á sanngjörnu verði."

Viðtalið við Stefán í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .