Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis telur nauðsynlegt að forgangsröðun í þeim fjölmörgu bygginga- og fjárfestingaáformum fjármálaáætlunar stjórnvalda fyrir árin 2017-2021 sé skýrari. Með áframhaldandi fjölgun aldraðra sé brýnna að fjölga byggingum hjúkrunarheimila en t.d. byggja skrifstofuhúsnæði fyrir Stjórnarráðið, líkt og áætlun gerir ráð fyrir.

Þá þurfi einnig að endurskipuleggja starfsemi stofnana, sérstaklega vegna þess að verðhækkun húsnæðis í miðborginni hefur verið langtum meiri en utan hennar. Þannig gæti embætti tollstjóra hæglega verið í úthverfi í stað miðbæjarins án þess að það kæmi niður á gæðum þjónustunnar.

Þá er á næstu árum gert ráð fyrir 70-90 milljarða króna framkvæmdum við Keflavíkurflugvöll og telur meirihlutinn varhugavert að flugvöllurinn sé alfarið rekinn af ríkisfyrirtækinu Isavia. Bent er á að flugvöllum í Evrópu sem eru í blandaðri eigu ríkis og einkaaðila hafi fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og á sama tíma ætli íslenska ríkið að fjármagna og taka áhættuna alfarið af stórum framkvæmdum í Keflavík. Betra væri að huga að nýjum fjármögnunarleiðum.

Formaður fjárlaganefndar er Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson er varaformaður nefndarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .