Að frumkvæði Framkvæmdanefndar Þjórsársveita var haldinn fundur með iðnaðarráðherra til að upplýsa ráðuneytið um markmið Þjórsársveita og ræða um framtíðarnýtingu orku Þjórsár.

Í tilkynningu frá nefndinni kemur fram að ráðherra hlustaði á sjónarmið nefndarinnar sem lagði áherslu á að virkjun krefðist fórna heimamanna og að hagsmunum þeirra yrði að gera hátt undir höfði.

„Vísaði Framkvæmdanefnd jafnframt til ályktunar ársþings SASS um atvinnumál þar sem því var lýst yfir að ekki verði fallist á að sunnlensk orka verði nýtt til stóriðjuuppbyggingar utan landsfjórðungsins,“ segir í tilkynningunni.

„Auðlindanýting og orkuframleiðsla á Suðurlandi krefjist fórna, sem ekki er ásættanleg, nema með áþreifanlegum ávinningi fyrir sunnlenskt samfélag.“

Þá kemur fram að iðnaðarráðherra tók erindi Framkvæmdanefndar vel og áréttaði þá skoðun sína sem hann áður hefur gert ljósa að sú umframorku sem ekki er þörf á til að sinna grunnþörfum íbúa landsins, s.s. til lýsingar hýbýla, ætti að nýta í héraði.

Þó sé ljóst að verkefni Þjórsársveita sé ærið þar sem orkukaupendur á Íslandi hafi hingað til reitt sig á hafnaraðgengi sem ekki sé til staðar í Þjórsársveitum.

Þá kemur fram að Framkvæmdanefnd leggur nú áherslu á að funda vítt og breitt með stjórnvöldum til að kynna markmið sitt um að orku Þjórsár beri að nýta við uppsprettu.

„Nefndin vonast til að aðrir aðilar taki erindi hennar jafn vel og iðnaðarráðherra,“ segir í tilkynningunni.

„Framundan bíður mikið verk við kynningu svæðisins fyrir mögulegum fjárfestum, gott er að hugsa til þess að bakland Þjórsársveita hjá stjórnvöldum sé traust. Miklu máli skiptir að ekki verði hlaupið til og orku úr fyrirhugðum virkjunum Þjórsár úthlutað án þess að kannað sé til þrautar möguleikar á því að orkan verði nýtt til atvinnuuppbyggingar við upptök hennar. Nægur tími er til stefnu þar sem Landsvirkjun hefur lýst því yfir að orkan sé til afhendingar í fyrsta lagi að 4-6 árum liðnum.“