Yfir 60.000 manns hafa skrifað undir undirskriftalista þess efnis að fá Jeff Bezos ekki aftur til jarðar, en hann verður um borð í fyrsta farþegaflugi geimflaugafyrirtækisins Blue Origin sem er alfarið í eigu hans sjálfs. New York Post greinir frá.

Sjá einnig: Bezos í fyrsta farþegaflugi Blue Origin

Stuttu eftir að tilkynnt var að Bezos yrði um borð í fyrsta farþegaflugi heims út í geim fóru af stað undirskriftalistar þess efnis að fá hann ekki aftur til jarðar. Einn slíkur listi, sem ber heitið „ekki leyfa Bezos að koma aftur til jarðar", hefur safnað yfir 40.000 undirskriftum. Yfirskrift listans er að billjónamæringar ættu ekki að vera til, hvorki á jörðinni né úti í geimi, en skyldu þeir velja hið síðarnefnda ættu þeir að halda sig þar.

Bezos er metinn á um 200 milljarða Bandaríkjadollara og er jafnframt ríkasti maður heims. Bezos verður í geimflauginni ásamt bróður sínum og sigurvegara uppboðs sem borgaði um 28 milljónir Bandaríkjadollara, um 3,5 milljarða íslenskra króna.