Embætti landlæknis hefur ekki enn birt skýrslu Hagfræðistofnunnar um þjóðhagsleg áhrif af sykurneyslu sem tilbúinn var í september á síðasta ári. Samið var um að Hagfræðistofnun mæti þjóðhagslegan kostnað af sykurneyslu en deilt er um hvort draga eigi neytendaábata frá kostnaðinum.

Athugasemdir embættisins snúa að því að það taldi stærra svið tekið fyrir í skýrslunni en rætt hafi verið í upphafi og taldi að einungis ætti að líta til kostnaðar af sykurneyslu en ekki á ábata neytenda af henni. Telur Embætti landlæknis skýrsluna vera ókláraða og að hún sé ekki birtingarhæf. Hefur því ekki náðst samkomulag um birtingu skýrslunnar. Í samningi Hagfræðistofnunnar og landlæknis kom fram að reikna ætti þjóðhagslegan kostnað af sykurneyslu og var þar vísað í aðra athugun sem stofnunin hafði gert á þjóðhagslegum kostnaði af tóbaksneyslu þar sem bæði var litið á kostað og neytendaábata og var niðurstaða þeirrar skýrslu að þjóðhagslegur kostnaður, þ.e. kostnaður að frádregnum ábata væri á bilinu 13-90 milljarðar. Í skýrslunni um sykurskatt fór Landlæknisembættið hins vegar fram á að kaflinn um ábata yrði tekinn út. Voru báðar skýrslurnar því unnar með svokallaðri kostnaðar- ábatagreiningu (e. social cost-benefit analysis) til að meta heildaráhrif af neyslu tiltekinna vara.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er skýrsla Hagfræðistofnunnar að miklu leyti samhljóða BS-ritgerð Ingibjargar Sólar Ingólfsdóttur í hagfræði við Háskóla Íslands frá því í júní í fyrra. Voru niðurstöður ritgerðarinnar þá leið að heildarkostaður af sykurneyslu væri á bilinu 2,9-16,2 milljarðar króna en að heildarábatinn væri hins vegar 18 milljarðar og því væri þjóðhagslegur ábati af sykurneyslu á bilinu 1,8-15,1 milljarðar króna. Benda niðurstöður ritgerðarinnar því til þess að þjóðhagslegur ábati sé af sykurneyslu sé umfram þjóðhagslegan kostnað.

Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .