*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 27. mars 2015 08:39

Vilja ekki endurgreiðslu vasks til íþróttafélaga

Viðskiptaráð leggst gegn því að samþykkt verði lög um endurgreiðslu virðisaukaskatts til íþrótta- og ungmennafélaga.

Ritstjórn
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Viðskiptaráð leggst mælir gegn því að frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem íþrótta- og ungmennafélög hafa greitt hefur verið vegna byggingar íþróttamannvirkja, bæði af vinnu og efniskaupum.

Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið segir að nauðsynlegt sé að einfalda skattkerfið enn frekar og auka skilvirkni þess með því að breikka skattstofn virðisaukaskatts með afnámi undanþága og sameiningu skattþrepa. Viðskiptaráð sé almennt mótfallið undanþágum frá greiðslu virðisaukaskatts. Íslenska virðisaukaskattkerfið sé óskilvirkt og innheimtuhlutfall hérlendis vel undir meðaltali OECD ríkja. Það orsakist af miklu umfangi undanþága og því að margir veigamiklir vöru- og þjónustuflokkar falla undir lægra skattþrep, sem valdi því að hið almenna þrep skattsins hækkar.

„Þessi sjónarmið koma einnig fram í tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi en hún leggur til að allar undanþágur frá virðisaukaskattkerfinu verði lagðar af eins og rúmast innan EES reglna. Viðskiptaráð telur ekki rétt að undanskilja íþrótta- og ungmennafélög, eða aðra hópa, þegar stefnt er að einföldun skattkerfisins. Standi vilji til þess að styrkja íþrótta- og æskulýðsfélög ætti fremur að gera það með öðrum hætti en í gegnum skattkerfið, til að mynda með beinum fjárframlögum. Þannig mætti betur tryggja upplýsta umræðu um ríkisfjármál og skilvirkni skattkerfisins,“ segir m.a. í umsögninni.