Hlutabréf í samskiptamiðlinum Twitter verða seld á 26 dali á hlut. Þetta er uppphaflega verðið sem sæst hafði verið á fyrir um tveimur mánuðum síðan. Breska dagblaðið Financial Times segir þá sem komi að útboðinu hafa síðan þá kynnt útboðið fyrir fjárfestum og skoðað það í þaula til að koma í veg fyrir að vandræðagangurinn í kringum skráningu Facebook á markað í maí í fyrra endurtaki sig. Markaðsverðmæti Twitter er samkvæmt því 18 milljarðar dala, jafnvirði rétt rúmra 2.180 milljarða íslenskra króna.

Financial Times segir stjórnendur Twitter ætla að koma saman í kauphöllinni í New York síðar í dag til að fylgjast með skráningu fyrirtækisins á markað.

Þegar Facebook var skráð á markað í maí í fyrra var upphafsgengi bréfa í fyrirtækinu 38 dalir á hlut. Það gerði ekkert nema lækka og var komið niður um 50% ekki löngu eftir skráningu á markað. Lækkunin hefur gengið til baka síðan þá.