Fram kemur í Fréttablaðinu í morgun að sveitarfélagið Ölfus neiti að opinbera útboðsgögn vegna sorphirðuútboðs sem fram fór í bænum. Neitunin stendur þrátt fyrir að úrskurðarnefnd hafi ákveðið að bænum væri skylt að afhenda gögnin.

Gámaþjónustan vann útboðið fyrir sveitarfélagið en samkvæmt frétt Fréttablaðsins tengjast stjórnendur og starfsmenn hennar bæjarstjóranum fjölskylduböndum. Þegar keppinautur Gámaþjónustunnar fékk ekki að sjá gögnin kærði hann málið til úrskurðarnefndar sem gaf þau tilmæli að bænum væri skylt að afhenda gögnin.

Gunnsteinn Einarsson, bæjarstjóri Ölfuss, segir hins vegar að ákvörðun nefndarinnar verði hunsuð. „Við gerum þetta vegna þess að viðsemjandi okkar telur álitamál hvort eigi að láta í té þessar upplýsingar og óskar eftir því að haldinn sé trúnaður við fyrirtækið,“ segir Gunnsteinn í samtali við Fréttablaðið og viðurkennir jafnframt að hann eigi fjölskyldumeðlimi sem starfi hjá Gámaþjónustunni. Telur hann sig þó ekki vanhæfan til að fjalla um málið.

Ármann Einarsson, fulltrúi D-lista í Ölfusi, er hins vegar ekki sáttur við þessi vinnubrögð. „Ég vil fá öll gögn upp á borðið. Úrskurðarnefnd hefur sagt bænum að afhenda gögnin og þá á hún að sjá sóma sinn í að gera það.“