Ekki er talinn vera pólitískur vilji fyrir því innan stjórnarflokkanna að reisa á laggirnar nýja stofnun sem byggð yrði á grunni embættis sérstaks saksóknara og myndi annast rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota og færi með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi í þeim málaflokkum sem þar væru til rannsóknar.

Í Morgunblaðinu í dag er rifjað upp að nefnd undir formennsku Sigurðar T. Magnússonar, um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum, hafi í fyrrahaust lagt til að byggt yrði upp nýtt rannsókna- og ákæruvaldsembætti á sviði efnahagsbrota, að norskri fyrirmynd, þar sem sérstök stofnun færi með rannsóknir á efnahags- og fjárglæpum.

Í Morgunblaðinu segir að innan stjórnarflokkanna sé talið að þær hugmyndir sem hafi verið uppi á borðum nefndarinnar þyki allt of dýrar og engir fjármunir séu fyrir hendi til þess að ráðast í stofnun slíks embættis. Dýrmætt sé þó að nýta þá miklu reynslu og þekkingu sem safnast hafi upp hjá embætti sérstaks saksóknara. Í staðinn mætti flytja þá starfsmenn embættisins sem það vildu í efnahagsbrotadeild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH). Á sama tíma myndi sú deild eflast til muna.