Ólafur Stephensen hefur reynt að segja upp störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins hjá 365 miðlum. Ekki var hins vegar tekið við uppsögn hans. Óvíst er hvort Ólafur mætir aftur til starfa, að því er starfsfólk fyrirtækisins segir í samtali við netmiðilinn Kjarnann . Ekki mun þó útilokað að Ólafur mæti aftur.

Eins og fram kom m.a. á VB.is í dag er Mikael Torfason , aðalritstjóri 365 miðla, hættur störfum og hefur Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi tekið tímabundið við starfi hans. Ekki er víst að starf aðalritstjóra muni lifa lengi. Þá segir Kjarninn að þeir Breki Logason, fréttastjóri Stöðvar 2, og Andri Ólafsson, fréttastjóri Fréttablaðsins, hafi verið settir af og þeim boðin ný störf á fréttastofunni.

Í Kjarnanum segir að Ólafi, sem hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins í um fjögur og hálft ár, hafi verið boðið að taka við breyttu hlutverki á fréttastofu 365 miðla og myndi hann þá heyra undir Sigurjón M. Egilsson, sem var ráðinn fréttaritstjóri í dag. Eftir að honum hafi verið boðið starfið hafi hann reynt að segja upp.