Í fréttatilkynningu sem stjórn Borgunar sendi frá sér í kvöld segir að stjórnin telji Steinþór Pálsson fara með dylgjur og óbeinar ásakanir um óheiðarleika og illan ásetning stjórnenda greiðslukortafyrirtækisins. Þessar dylgjur segir stjórnin ekki standast neina skoðun.

Yfirlýsing stjórnarinnar tíundar fjóra málspunkta.

Í fyrsta lagi segist stjórnin allt tal um blekkingar vera fráleitt í ljósi þess að helmingur þess hlutar sem stjórnarmenn Borgunar keyptu í félaginu af Landsbankanum hafi verið seldur tveimur mánuðum fyrir nokkurn fyrirvara um sölu Visa Europe, sem er bitbein umræðunnar - eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um áður.

Í öðru lagi segir í yfirlýsingu stjórnarinnar að Steinþór sé orðinn margsaga um hvort og hvernig Landsbankinn kynnti sér valréttinn. Þá sé staðreyndin sú, samkvæmt stjórn Borgunar, að Landsbankinn hafi haft mikið betri aðgang að upplýsingum um valréttinn en stjórn Borgunar sjálf:

„Það er ótrúlegt að Landsbankinn, eftir að hafa að eigin sögn kynnt sér gögn um valréttinn vel,  hafi samt komist að þeirri niðurstöðu að Borgun, einn allra leyfishafa, hefði ekki rétt til greiðslna, kæmi til sölu Visa Europe.”

Í þriðja lagi segir að við sölu á hlut Landsbankans í Borgun árið 2014 hafi fulltrúar bankans haft aðgang að öllum upplýsingum sem máli skiptu. Því hafi Landsbankanum verið „í lófa lagt að fá ytri sérfræðinga til þess að yfirfara hverjar þær upplýsingar sem hann vildi um málefni Borgunar.”

Að lokum segir í yfirlýsingu greiðslukortafyrirtækisins að „alvarlegar ásakanir bankastjórans um meint lögbrot annarra í þessu máli megi sjálfsagt skoða í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem Landsbankinn er kominn í,” en enn fremur muni stjórnendur Borgunar frábiðja sér með öllu að vera gerðir að blórabögglum í þessu máli.