Stjórn Gamma, sem nú er dótturfélag Kviku banka, afturkallar bónusgreiðslur til 11 starfsmanna fyrirtækisins upp á tugir milljóna árin 2018 og 2019 sem átti eftir að greiða út að því er Fréttablaðið greinir frá. Meðal þeirra sem ekki fá greiðslurnar eru þeir Agnar Tómas Möller og Jónmundur Guðmundsson sem starfa í dag hjá eignastýringu Kviku í dag.

Jafnframt vill stjórnin að fyrrverandi forstjóri og sjóðsstjóri hjá félaginu, þeir Valdimar Ármann og Ingvi Hrafn Óskarsson, endurgreiði félaginu um 12 milljónir í kaupaukagreiðslur sem höfðu þegar verið greiddar út.

Ingvi Hrafn var sjóðsstjóri Novus sjóðs Gamma sem átti fasteignafélagið Upphaf en fyrir ári kom í ljós að eignir félagsins væru mikið ofmetnar en þær voru þá færðar niður úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir.

Kaupaukarnir, eða bónusarnir voru vegna góðrar afkomu hjá Gamma árin 2017 og 2018, en samkvæmt reglum FME mátti fresta 40% þeirra um þrjú ár sem nam rúmlega 33 milljónum í lok ársins 2019. Stjórnin telur nú ekki rétt að greiða út kaupaukana vegna þess að afkoma félagsins hefur versnað til muna, en tap þess síðustu 18 mánuði nemur tæplega hálfum milljarði.

Kvika greiddi 839 milljónir í reiðufé fyrir Gamma þegar félagið var keypt í mars á síðasta ári, en þá var heildarsöluverðið áætlað 2,54 milljarðar en sú tala er nú talin mun lægri þar sem afgangurinn var greiddur í formi hlutdeildarskírteina í sjóðum Gamma og árangurstengdra þóknana.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni fjárfestingarsjóða Gamma, það er Anglia, Novus og Upphafs: