Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ásamt níu þingmönnum úr fjórum flokkum hafa lagt fram þingályktunartillögu um að fela forsætisráðherra að endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga og greina þjóðhagslegt mikilvægi veiðanna. Í gær greindi Morgunblaðið frá því að hvalveiðar yrðu hafnar á ný í sumar eftir tveggja ára hlé.

„Við matið verði m.a. horft til hagsmuna annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og tillit tekið til vísindarannsókna, dýraverndarsjónarmiða og hagsmuna sveitarfélaga,“ segir í tillögunni.

Í greinargerð hennar er vísað til skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands en niðurstaða hennar var að þjóðhagslega hagkvæmt teldist að halda hvalveiðum áfram. Sá fyrirvari hafi hins vegar verið gerður í skýrslunni að niðurstöður hennar gæti þurft að endurmeta síðar út frá nýjum upplýsingum um ferðaþjónustuna, virði umhverfisgæða fyrir Íslendinga eða ímynd þjóðarinnar út á við.

„Síðan skýrslan var gefin út, fyrir átta árum, hefur hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu ríflega tvöfaldast, nýrra gagna hefur verið aflað um arðsemi hvalveiða sem atvinnugreinar ásamt því að 28 ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Ástralía, Brasilía, Ísrael, Mexíkó, Mónakó og Nýja-Sjáland hafa afhent íslenskum stjórnvöldum sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni er mótmælt. Verður því að telja forsendur til endurmats vera nú til staðar á þeim grundvelli sem kveðið var á um í skýrslu Hagfræðistofnunar,“ segir í greinargerðinni.