Þrír þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um breytingu á lögreglulögum. Er lagt til í frumvarpinu að 31. grein laganna, sem segir að lögreglumenn megi hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun, falli brott. Eyrún Eyþórsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en meðflutningsmenn eru þær Svandís Svavarsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að félagafrelsi sé verndað í 74. grein stjórnarskrárinnar og fjölmörgum alþjóðasamningum sem Ísland eigi aðild að. Félagafrelsi lúti ekki einungis að rétti til að stofna félög og eiga aðild að þeim, heldur einnig rétti til að standa utan félaga. Jafnframt sé frelsið talið ná að einhverju marki til athafnafrelsis félaga til að tryggja og standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna.

Segir einnig að þrátt fyrir að félagafrelsið feli ekki í sér skilyrðislausan rétt til verkfalls, þá sé hann eigi að síður talinn mikilvægur hluti samningsfrelsis félaga sem njóti verndar stjórnarskrár og alþjóðasáttmála. Því sé ljóst að takmörkun slíks réttar skuli byggður á lögmætum sjónarmiðum og nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi.

Þá kemur fram í greinargerðinni að Landssamband lögreglumanna hafi um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Ein ástæða þess sé sú staðreynd að lögreglumenn geti ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn sé.

Með frumvarpinu er því lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með breytingu á lögreglulögum á þá leið að 31. grein þeirra verði felld úr gildi.