Vaxandi fjöldi Breta úr atvinnulífinu vill endurskipuleggja samband Bretlands við Evrópusambandið, en flestir vilja þó vera áfram í sambandinu, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem fjallað er um á vef Financial Times.

Í könnun sem framkvæmd var meðal forsvarsmanna 3.200 fyrirtækja í Bretlandi kemur fram að 60% svarenda telja að með því að vera áfram í Evrópusambandinu, á sama tíma og meiri völdum sé úthlutað til stjórnvalda í Bretlandi, muni mestur árangur nást í efnahags- og atvinnumálum landsins. Þetta er aukning um sex prósentustig frá síðustu sambærilegu könnun.

59% svarenda telja að það myndi hafa slæm áhrif á atvinnumál og viðskipti í Bretlandi að yfirgefa ESB. Þrátt fyrir það eru 46% svarenda á þeirri skoðun að frekari samruni innan Evrópu gæti haft skaðleg áhrif.

John Longworth, forstöðumaður British Chambers of Commerce, sem framkvæmdi könnunina, segir niðurstöðurnar gefa til kynna að fyrirtæki telji að endurskipulagning á viðveru Bretlands í ESB, frekar en nánari samruni eða algjör úrsögn, sé líklegast til að stuðla að efnahagslegum bata í Bretlandi.

Longworth segir jafnframt að á meðan Evrópusambandið starfar ekki í þágu allra aðildarríkjanna, þá muni halda áfram að draga úr lögmæti þess, ekki bara meðal kjósenda, heldur einnig meðal einstaklinga úr atvinnu- og viðskiptalífinu.