Frímiðaréttindi fyrrverandi starfsmanna FL Group (nú Stoða) og fyrrverandi starfsmanna Icelandair eru nú til skoðunar innan félagsins. Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að málið væri til skoðunar. Að sögn Gunnlaugs hefur það komið núverandi stjórn Icelandair á óvart hve víðtæk þessi réttindi eru en þau kosta félagið milljónir króna á ári.

Hann sagðist vilja beita sér fyrir því að rætt yrði við þá sem njóta réttindanna um breytingar á þeim, ,,enda hygg ég að flestir þessara aðila kjósi núorðið að borga sína miða eins og aðrir,“ sagði Gunnlaugur.

Eftir því sem komist verður næst er svokallaður frímiðaréttur starfsfólks algengur innan flugheimsins og hefur verið um áratugaskeið hjá Icelandair og forverum þess. Fyrir skömmu bárust fréttir af því að þegar skilið var á milli starfsemi Icelandair og FL Group fyrir rúmum tveimur árum hafi FL Group skilið eftir inni í Icelandair samning þess efnis að starfsmenn FL Group skyldu áfram njóta réttar til frímiða eftir að FL Group yrði skilið frá Icelandair.

Þáverandi stjórnendur FL Group gerðu því umræddan samning við sjálfa sig. Nýir eigendur sem komu að félaginu í lok árs 2006 gerðu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, athugasemd við samninginn en náðu ekki að fá hann felldan niður.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .