Seðlabankinn telur að svo stöddu erfitt að innleiða lagaheimild um beina erlenda fjárfestingu án þess að slíkt valdi „töluverðu skammtíma útflæði erlends gjaldeyris, sem myndi leiða til veikingar krónunnar“. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hefur bankinn þó veitt undanþágur til slíkra fjárfestinga. Þetta segir í minnisblaði efnags- og viðskiptaráðuneytis til efnahags- og viðskiptanefndar, um breytt gjaldeyrishöft.

Innan Seðlabankans er nú til athugunar sá möguleiki að hleypa innlendum aðilum inn í útgönguútboð bankans, sem hingað til hafa einungis verið opin erlendum aðilum. Leiðin yrði gerð í þeim tilgangi að liðka fyrir möguleika innlendra aðila til erlendra fjárfestinga. „Skilyrði fyrir þátttöku innlendra aðila væri að fjármunirnir yrðu nýttir í beina fjárfestingu erlendis sem ætlað væri að styðja við útflutningsstarfsemi hér heima. Í þessu samhengi er jafnframt verið að kanna þann möguleika að innlendur aðili kaupi 50% af þeim fjármunum sem hann þarfnast í gegnum útgönguútboðið og fái þá jafnframt heimild til þess að kaupa 50% á álandsmarkaði. Þannig fær innlendur aðili sem vill fjárfesta erlendis til að styðja við núverandi útflutningsstarfsemi hagstæðara verð en sá aðili sem einungis tekur þátt í útboðinu til þess að losa um stöðu sína innanlands,“ segir í minnisblaðinu. Því væri um að ræða leið sambærilega fjárfestingarleið bankans, nema fyrir innlenda fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.