Í dag verður önnur umræða um fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar til ársins 2023 í borgarstjórn. Hafa borgarfulltrúar minnihlutans lagt fram ýmis konar breytingartillögur við áætlunum meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar, þar með talið að selja skuli Gagnaveitu Reykjavíkur að því er Morgunblaðið segir frá.

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna sem leggja tillöguna fram bendir á að sala á nettengingum sé ekki hluti af grunnrekstri borgarinnar og heldur ekki Orkuveitu Reykjavíkur.

10 milljarða viðbót síðan ákveðið að selja minnihlutann

„Nær tuttugu ár eru síðan Orkuveitan fór að fjárfesta í nettengingum og síðan þá hafa öflugir aðilar í fjarskiptum búið til samkeppnismarkað,“ segir Eyþór sem segir sölu minnka áhættu í rekstri borgarinnar, lækka vaxtagjöld sem og stuðla að bættu samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði.

„Það er því engin þörf fyrir aðkomu Reykjavíkurborgar að þróun neytendamarkaðar í fjarskiptum og engin þörf fyrir að Orkuveita Reykjavíkur fóstri áfram þetta þróunarverkefni.“ Leggur hann áherslu á að söluandvirðið yrði nýtt til að lækka skuldir borgarinnar og fjármagnskostnað, enda séu tugir milljarða bundnir í þessu dótturfélgi Orkuveitunnar.

Hann áætlar að fjárfestingarnar í félaginu frá upphafi nemi um 30 milljörðum króna að núvirði, þar af 10 milljarðar á þeim sex árum síðan samþykkt var í borgarstjórn að selja allt að 49% hlut í félaginu.

Framúrkeyrsluskrifstofa verði lögð niður

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sama flokks hefur jafnframt talað fyrir einföldun stjórnkerfis borgarinnar, með því að leggja niður skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar í Reykjavík. Eins og fram hefur komið í fréttum sagðist fyrrverandi skrifstofustjóri hennar segist hafa borið ábyrgð á framúrkeyrslu við braggann í Nauthólfsvík.

Jafnframt hefur Viðskiptablaðið fjallað um að skrifstofan hefur séð um fleiri verkefni sem hafa farið framúr fjárhagsáætlun, og leggur Hildur því til að hluti verkefna hennar verði eftirlátin einkaaðilum en restin fari undir skipulagssvið borgarinnar. Segir Hildur að frjálsleg „ráðstöfun skattfjár til uppbyggingar kaffihúsa og veitingastaða hafi bitnað á grunnþjónustu borgarinnar.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þvert á móti erfitt að taka tillöguna alvarlega, en hann segir fjölmörg verkefni skrifstofunnar tekjuskapandi og þakkar henni 8 milljarða afgangi í rekstri borgarinnar fyrstu 9 mánuði ársins. „Það má ekki síst rekja til aukinna tekna af byggingarétti en eitt meginverkefni skrifstofunnar er að vinna að margvíslegrri framþróun borgarinnar og tekjuöflun í gegnum sölu lóða og byggingarréttar,“ segir Dagur.