Akureyringar vilja fá bandarísku verslunarkeðjuna Costco í höfuðstað Norðurlands, en stofnaður hefur verið Facebook-hópur undir nafninu Costco til Akureyrar . Hópurinn var stofnaður í gær og hafa nú þegar um 1.300 manns skráð sig í hópinn. Augljóst er að mikill áhugi er fyrir því að fá Costco vöruhús til Akureyrar.

Costco opnaði 14 þúsund fermetra verslun í Kauptúni í Garðabæ á dögunum og hefur notið gríðarlegra vinsælda. Til að mynda voru meðlimir Facebook-hópsins Keypt í Costco Ísl- Myndir orðnir 62 þúsund á rúmri viku eftir opnun Costco, sem jafngildir um fimmtungi af íslensku þjóðinni.

Nú vilja Akureyringar fá að taka þátt í Costco ævintýrinu. „Fílinn norður!“ segir einn meðlimur Facebook-hópsins og vísar í risafílinn sem er til sölu í Costco á hálfa milljón króna.