Unnið er að því í Belgíu að fá franskar kartöflur vottaðar af UNESCO, menningararmi Sameinuðu þjóðanna, sem menningarlega sérstæðan hlut, á borð argentínskan tangó.

Franskar kartöflur, sem líklega ætti að kalla steiktar kartöflur í þessari umfjöllun, eru hvergi vinsælli en í Belgíu. Um 5.000 kartöflukofa er að finna í landinu þar sem Belgar kaupa steiktar kartöflur í kramarhúsum.

Flóknara verður fyrir Belga að fá þessa vottun en ella, því fyrsta skrefið er að fá stuðning menningarmálaráðherra viðkomandi lands. Í Belgíu eru slíkir ráðherrar þrír talsins. Menningarmálaráðherra hollenskumælandi hluta landsins hefur þegar veitt málinu sinn stuðning, en ráðherrar frönsku- og þýskumælandi hlutanna eru að hugsa sinn gang.

Á lista UNESCO yfir óáþreyfanleg menningarleg verðmæti sem eiga vernd skilda eru 314 atriði, svo sem tyrkneskt kaffi og söngur Aka fólksins í Miðafríkulýðveldinu.