*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Innlent 23. febrúar 2017 12:29

Vilja fá Ómar inn í stjórnina

Fjárfestarnir Finnur Reyr Stefánsson, Tómas Kristjánsson og Þórir Kristinsson vilja koma Ómari Benediktssyni á ný í stjórn Icelandair.

Ritstjórn

Í kjölfar gagnrýni á yfirstjórn Icelandair group eftir hrun á gengi bréfa flugfélagsins virðist hópur fjárfesta stefna að því að breytingar verði á stjórn félagsins á aðalfundi þess 3. mars komandi.

Finnur Reyr Stefánsson og Tómas Kristjánsson, ásamt tveim öðrum einkafjárfestum sem samanlagt eiga um 1,5% hlut í félaginu, virðast stefna að því tefla fram Ómari Benediktssyni í stjórnina og leita þeir nú stuðnings ýmissa hluthafa eins og lífeyrissjóða við framboð Ómars að því er segir í Fréttablaðinu.

Sat í stjórninni fyrir hrun

Ómar var um tíma varaformaður í Icelandair og sat hann í stjórn þess á árunum fyrir bankahrunið, en nú starfar hann sem framkvæmdastjóri Farice.

Þriðji aðilinn sem að félaginu stendur er Þórir Kristinsson, viðskiptafélagi Ómars, en hann hefur starfað sem stjórnandi hjá flugfélögunum SmartLynx og Air Atlanta, en samanlagt eiga fjórmenningarnir hluti í félaginu að andvirði 1.200 milljóna.

Fjórir lífeyrissjóðir eiga tæpan helming í Icelandair

Meðal þeirra aðila sem aðilarnir leita samkvæmt heimildum blaðsins hófana hjá um stuðning við framboð Ómars eru Stefnir og Gildi lífeyrissjóðir, sem eru meðal fjögurra stærstu eigenda Icelandair Group. 

Samanlagt eiga þeir ásamt Lífeyrissjóði verslunarmanna og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 46% í flugfélaginu, Gildi á 7,4% og Stefnir 14,3%.

Þykir ljóst að Úlfar Steindórsson fái áfram stuðning til varaformennsku stjórnar frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og Magnús Magnússon fái stuðning frá LSR.