Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu tveggja innflutningsfyrirtækja um að 76% tollur, sem lagður er á innfluttar franskar kartöflur, yrði dæmdur ólögmætur og endurgreiddur. Er greint frá þessu í frétt á vefsíðu Félags atvinnurekenda.

Dómurinn féllst á þau rök íslenska ríkisins í málinu að tollurinn væri ætlaður til almennrar tekjuöflunar, en ekki til að vernda innlenda framleiðslu. Dómurinn er í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli innflutningsfyrirtækja gegn ríkinu vegna tolls á innflutt snakk.

Þann toll hefur Alþingi nú ákveðið að fella niður frá og með næstu áramótum. Félag atvinnurekenda skorar á þingið að gera slíkt hið sama varðandi tollinn á franskar kartöflur.