Samtök atvinnulífsins (SA), hafa lagt til breytingar vegna bágrar stöðu sveitarfélaga. Í skýrslu efnahagssviðs SA: Höldum við rétt á spöðunum, segir að mörg sveitarfélög hafi hvorki burði né getu til að taka við fleiri verkefnum frá ríkinu. Sé vilji til að efla sveitarfélögin þarf að ráðast í breytingar að mati samtakanna.

Fyrsta skrefið sem SA mælir með er að fækka sveitarfélögum úr 74 í 9 með sameiningu sveitarfélaga. SA telja að hagrænu áhrifin af sameiningu sveitarfélaganna vera margvísleg:

„Sveitarfélögin verða sambærileg að stærð sem gerir samanburð milli sveitarfélaga auðveldari. Samfara því sem sveitarfélögin verða stærri og öflugri skapast svigrúm til að lækka stjórnsýslukostnað á íbúa og auka skilvirkni. Hagræðing í rekstri býr til aukin tækifæri til að veita íbúum betri þjónustu eða þjónustu sem hefur áður ekki staðið til boða. Þá skapast tækifæri til að efla sveitastjórnarstigið og færa fleiri stór verkefni frá ríki til sveitarfélaga og þar með færa þjónustuna nær íbúunum,“ segir meðal annars í rökstuðningi SA.