Menntun lögreglumanna verður færð á háskólastig og skilyrði til starfs lögreglumanns verður diplómapróf í lögreglufræðum nái nýtt frumvarp innanríkisráðherra fram að ganga.

Frumvarpið byggir á tillögum starfshópa sem falið var að leggja fram tillögur að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Lögðu þeir til fyrrgreindar breytingar svo og að sérstök eining innan lögreglunnar hafi það hlutverk að sjá um tengingu fræðilegs og verklegs hluta námsins sem og að sinna rannsóknar- og fræðslustarfi innan lögreglu.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að núverandi nemendur í Lögregluskóla ríkisins eigi rétt til 30. september á að ljúka námi sínu og skal skólinn útskrifa í ágúst 2016 þá nemendur sem hófu skólagöngu haustið 2015.