Stofna þarf fjármálastöðugleikaráð og færa bæði Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið undir eitt ráðuneyti til að styrkja stjórnhætti og skýra ábyrgð á fjármálastöðugleika. Þetta kemur kemur í tillögum sérfræðihóps sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði í mars. Tillögur hópsins voru kynntar í morgun og kom þar fram að strax verði hafist handa við að innleiða þær. Þá er stefnt að því að tvö lagafrumvörp sem taka á tillögunum líti dagsins ljós á yfirstandandi þingi.

Tillögurnar er að finna í skýrslu hópsins Framework for Financial Stability in Iceland. Fulltrúar í hópnum eru Gavin Bingham, fyrrverandi framkvæmdastjóri Central Bank Governance Forum hjá Alþjóðlega greiðslumiðlunarbankanum í Basel, Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsinki og Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins.

Á meðal tillagna hópsins er að unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti, svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi við skilameðferð og hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.

Fram kemur á vef fjármálaráðuneytis að fjármála- og efnahagsráðherra muni skipa nefnd til þess að semja frumvarp um fjármálastöðugleika og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra muni skipa nefnd til þess að semja frumvarp um viðbúnað, inngrip og slit fjármálafyrirtækja.

Skýrsla sérfræðihópsins