Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað frávísunarkröfu íslenska ríkisins í máli auglýsingastofunnar Jónsson & Le’macks (J&L) gegn íslenska ríkinu og verður málið því tekið til efnismeðferðar. Í málinu er tekist á um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart J&L ehf.

Aðdragandi málsins er í stuttu máli sá að miðvikudaginn 28. apríl 2010, í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli, óskaði iðnaðarráðuneytið eftir tilboðum frá fimm auglýsingastofum, þar á meðal J&L, vegna fyrirhugaðs markaðsátaks sem átti að felast í því að bæta ímynd Íslands í kjölfar eldgossins. Markaðsátakið hlaut síðar nafnið Inspired by Iceland.

Auglýsingastofurnar fengu tvo og hálfan sólarhring til að vinna tillögurnar og bar að skila þeim laugardaginn 1. maí 2010. Þriðjudaginn 4. maí 2010 fengu auglýsingastofurnar svar frá iðnaðarráðuneytinu þar sem fram kom að ráðuneytið hafnaði öllum tilboðum á þeirri forsendu að umrædd framkvæmd verkefnisins væri í andstöðu við lög um opinber innkaup. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafði ráðuneytið þá áttað sig á því að bjóða þyrfti verkefnið út á EES-svæðinu

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.