Samhliða kaupum Glitnis banka á hlut Milestone í Sjóvá kaupir Glitnir hlut Milestone í fjárfestingarfélaginu Mætti hf. Eftir viðskiptin eiga Sjóvá og Glitnir Mátt til helminga og hafa lýst yfir áhuga á að fá fleiri inn í það samstarf.

Glitnir, Sjóvá og Milestone stofnuðu fjárfestingafélgið Mátt hf. Áform þeirra um stofnun fjárfestingafélags voru kynnt í tilkynningu til Kauphallar 19. apríl 2005, þegar tilkynnt var um sölu Íslandsbanka á 66,6% hlut í Sjóvá til eignarhaldsfélagsins Þáttar. Eigið fé nemur kr. 11.350 milljónum og er skipting eignarhluta þannig að Sjóvá á 49,7%, Íslandsbanki 34,4% og Milestone á 15,9%.

Markmiðið með rekstrinum er að setja á fót öflugt fjárfestingarfélag sem getur tekist á við stærri verkefni og þá jafnan með umtalsverðan hlut. Hinu nýja fjárfestingarfélagi er ætlað að auka verðmæti fyrir eigendur sína með fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum, bæði í eigin verkefnum og í samstarfi við aðra fjárfesta.

Friðjón Rúnar Sigurðsson var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og hefur stýrt daglegum rekstri ásamt því að hafa yfirumsjón með fjárfestingum félagsins.