Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um innflutning nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu. Unnur Brá Konráðsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en meðflutningsmenn eru þeir Brynjar Níelsson og Pétur H. Blöndal.

Þannig er lagt til að Alþingi álykti að fela landbúnaðarráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem feli í sér að hagsmunasamtökum nautgripabænda verði heimilað að flytja inn, varðveita og afhenda innflutt nautasæði til sæðingar íslenskra kúa. Markmið frumvarpsins verði að efla stofn mjólkurkúa og auka hagkvæmni innlendrar framleiðslu þannig að mögulegt verði að mæta innlendri og erlendri eftirspurn.

Í greinargerð með tillögunni segir að mikil eftirspurn sé eftir mjólkurafurðum innan lands sem utan. Að margra mati muni áframhaldandi aukning eftirspurnar leiða til þess að innlend mjólkurframleiðsla nái ekki að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar.

Flutningsmennirnir meta það sem svo að samþykkt tillögunnar ætti ekki að spilla verndargildi íslenska kúastofnsins. Þvert á móti megi gera ráð fyrir að margir bændur muni kjósa að halda aðeins íslenskar kýr. Reynist þess þörf megi gera ráð fyrir að landbúnaðarráðherra leggi til að ráðist verði í mótvægis- og verndaraðgerðir samhliða framlagningu lagafrumvarps þess sem tillagan mælir fyrir um.