*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 12. maí 2021 08:09

Vilja fólk með áhuga á „peningum og árangri“

Sölufulltrúi hjá TM2 er sagður geta þénað yfir eina milljón króna á mánuði. Framkvæmdastjórinn hefur komið víða við.

Ingvar Haraldsson
Félagið er skráð með aðsetur í Katrínartúni 2.
Haraldur Guðjónsson

Öflugur sölufulltrúi er sagði geta auðveldlega þénað yfir eina milljón króna á mánuð samkvæmt atvinnuauglýsingu sem félagið TM2 Technology Metals Market birtir á starfatorgi Alfreðs.

Í auglýsingunni segir að félagið sé í mjög örum vexti. Það reki vettvang fyrir viðskipti með málma og sé í bankastarfsemi. Félagið reki sex skrifstofur víða um heim en höfuðstöðvarnar séu í London. Þá vilji félagið efla starfsemi sína á Íslandi.

Samkvæmt vef Technology Metals Market býður félagið nokkurs konar markaðstorg fyrir viðskipti með það sem þau kalla tæknimálma, það eru málmar sem nýtast einna helst við framleiðslu ýmiskonar tölvubúnaðar. 

Félagið vill umsóknir frá fólki sem sé tilbúið að „opna dyr, tengja saman punkta og skapa og breikka vaxandi fjárstreymi" félagsins eins og það er orðað í auglýsingunni. Ekki sé gert ráð fyrir reynslu í geiranum en hins vegar sé nauðsynlegt að hafa mikinn metnað fyrir „peningum og árangri".

Starfsmenn byrja á grunnlaunum eftir tveggja daga þjálfun en öflugir starfsmenn eigi að geta aflað sér í meira en milljón króna í laun á mánuð innan þriggja mánaða um leið og það „sparki upp hurðum og takist óttalaust á við eigin ótta." 

Eigandinn komið víða við

Samkvæmt vef bresku fyrirtækjaskrárinnar er Pétur Georgesson aðaleigandi og framkvæmdastjóri Technology Metals Market. Pétur er einnig framkvæmdastjóri félagsins Capital Sniper sem lýst er sem fjárfestinga- og ráðgjafafyrirtæki fyrir bálkakeðjur á heimasíðu félagsins, og miðlara á TM2, markaðstorgi Technology Metals Market.

Á vef Capital Sniper segir að Pétur hafi komið við og starfað í meira en fjórum heimsálfum meðal annars við fjölmiðlun, útgáfustarfsemi, landbúnað, orkugeirann, miðlun, veðmál á netinu og akstursíþróttir. Þá segir enn fremur að Pétur hafi lært hagfræði í Bethany og franskar bókmenntir í Sorbonne.

Pétur á íslenska móður en faðir hans er bandaríski leikarinn George Bookasta, sem hóf feril sinn sem barnastjarna í Hollywood á tímum þöglu myndanna. Charlie Chaplin er sagður hafa uppgötvað George en George lék í sinni fyrstu mynd, Rosita 6 ára gamall árið 1923.

Nafn Péturs ber meðal annars á góma í Samherjaskjölunum svokölluðu sem Wikileaks birti árið 2019 í tengslum við umfjöllun um starfsemi Samherja í Afríku. Þar má finna tölvupóst og fjárfestakynningu frá Pétri til stjórnenda Samherja frá árinu 2014 þar sem Pétur var framkvæmdastjóri sjávarútvegsfélagsins Halldor Seafood.

Halldor Seafood rak fiskvinnslu í Reykjanesbæ og var að leita að fjárfestum til að fjármagna aukin kvótakaup hér á landi og útgerð í Afríkuríkjunum Gabon og Miðbaugs-Gíneu sem það hafði þá hug á að koma á fót. Þau áform virðast þó ekki hafa gengið eftir þar sem Halldor Seafood ehf. var lýst gjaldþrota árið 2015.

Fjárfesting frá bandarísku félagi

Í janúar var greint frá því að félagið Ideanomics, sem skráð er í kauphöll í Bandaríkjunum um hygðist fjárfesta 1,5 milljónum punda, um 260 milljónum króna í Technology Metals Market

Ideanomics hefur reynst umdeilt í heimlandi hafa skortsalar margir beint spjótum sínum að félaginu. Hafðar hafa verið uppi efasemdir um Ideanomics sem hefur nokkrum sinnum breytt um stefnu á síðustu árum. Skortsalarnir segja félagið fyrst og fremst elta tískubólur í fjárfestingum, nú síðast tengda rafbílum, með það að markmiði að halda uppi verði á bréfum félagsins. Stjórnendur Ideanomics hefur þó sjálfir blásið á allar ásakanir og sagt að þær eigi ekki við rök að styðjast. Félagið sé á góðri leið með því að fjárfestingum í spennandi félögum.

Stikkorð: Pétur Georgesson