Auður Capital hefur að markmiði að fara inn í hinn gríðarlega karllæga fjárfestingarheim hérlendis og gæða hann aðeins ögn kvenlægari gildum, segir Kristín Pétursdóttir, forstjóri fyrirtækisins í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist á morgun. Hún kveðst sannfærð um að þegar litið er til lengri tíma muni fjárfestingarhluti fjármálageirans átta sig á þeim ört vaxandi markhóp sem er konur í viðskiptum og reyna að nálgast hann. Það muni hins vegar taka tíma.

„Vissulega væri áskorun fyrir fjármálageirann að nálgast konur með fjárfestingatengdri þjónustu án þess að skaða núverandi viðskiptalíkan, en það líkan hefur notið mikillar velgengni og því erfitt að sjá af hverju fyrirtækin skyldu breyta því og hverfa frá fyrri nálgun. Þar að auki menn breyta menn ekki um aðferðafræði á einni nóttu. Ég held að það væri mjög erfitt að gera á trúverðugan hátt á mjög skömmum tíma,” segir Kristín.

Áhættuvitund margra hvarf

Í viðtalinu ræðir hún m.a. um ástæður þess að hún hætti sem aðstoðarforstjóri Kaupþing Singer & Friedlander í árslok 2006, viðbrögð fjárfestingageirans við tilkomu Auðar Capital, kosti þess að hafa engin lík í lestinni, hugmyndir um kynjakvóta í viðskiptalífinu og fjárfestingarstefnu íslenskra fjárfesta liðinna ára. Hún kveðst þeirrar hyggju að ekki hefði sakað að hafa meira af kvenlægari gildum með þeirri fjárfestingarstefnu. Það má segja að áhættumeðvitund margra fjárfesta hafi nánast horfið, alls ekki þó allra,” segir hún.

_____________________________________

Í Viðskiptablaðinu á morgun er ítarlegt viðtal við Kristínu Pétursdóttur. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .