Áætlað er að bandaríska matvörukeðjan Market Basket tapi um þessar mundir um 10 milljónum bandaríkjadala, að jafnvirði rúmum milljarði íslenskra króna, á dag. Ástæðan er sú að stór hluti starfsmanna hefur lagt niður störf og reyna nú að hindra aðgengi viðskiptavina að versluninni í mótmælaskyni, vegna þess að fyrrum framkvæmdastjóri keðjunnar hefur verið leystur frá störfum. Frá þessu er sagt á vef NPR.

Starfsmennirnir segja Arthur T. Demoulas, fyrrum framkvæmdastjóra, koma vel fram við sig og vilja fá hann aftur til starfa. Arthur T. og frændi hans Arthur S. hafa í talsverðan tíma barist um stjórn fyrirtækisins. Deilan hefur oft farið fyrir dómstóla en þeir telja báðir að þeir eigi tilkall til matvörukeðjunnar. Í síðasta mánuði náði Arthur S. yfirhönd í baráttunni og lét frænda sinn víkja. Þá risu starfsmenn upp á afturlappirnar og hófu mótmæli, sem eru í dag farin að hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. Alls starfa 25.000 manns hjá Market Basket.