Finnski fjármálaráðherrann Jutta Urpilainen sagðist í viðtali síðastliðinn föstudag heldur yfirgefa evruna en borga skuldir annarra landa. Hún sagði Finna vissulega skuldbundna því að halda evrunna gangandi og að evran væri góð fyrir landið. Hins vegar væru þau ekki tilbúin til að taka hverju sem er í því skyni einu að halda evrunni gangandi. Þetta kemur fram á vef The Wall Street Journal í dag.

Urpilainen segir sameiginlega ábyrgð á ríkisfjármálum landa ekki það sem Finnar eigi að þurfa að sætta sig við. Hún sé jafnframt ekki tilbúin í bankabandalag ef það feli í sér slíkar skuldbindingar.

Eins og greint hefur verið frá voru á leiðtogafundi Evrópusambandsins á dögunum tekin stór skref í átt að breyttri mynd myntbandalags ESB. Meðal þess sem leiðtogar sammæltust um var meira samstarf um fjárlagagerð landa, meiri sveigjanleiki fyrir þau lönd sem þurfa að óska eftir neyðaraðstoð og sameiginlegt bankabandalag og eftirlit með bönkum innan ESB.

Nánar er fjallað um leiðtogafund Evrópusambandsins í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.