„Samdráttur mælist nú á mörgum sviðum efnahagslífsins. Atvinnuleysi hefur aukist og launþegum fækkað í öllum helstu greinum hins almenna vinnumarkaðar. Hægt hefur á hagvexti í mörgum af helstu viðskiptalöndunum og efnahagshorfur þar dökknað. Hefur þetta dregið úr væntingum um vöxt gjaldeyristekna og hagvöxt íslenska þjóðarbúsins.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu Samtaka iðnaðarins sem birt var á vef samtakanna í morgun undir yfirskriftinni „Tilefni til að lækka stýrivexti frekar“. Telja samtökin að lækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga að verðbólgumarkmiði undanfarið gefi peningastefnunni góða kjölfestu og svigrúm til þess að lækka stýrivexti Seðlabankans til þess að milda niðursveifluna í efnahagslífinu.

Benda samtökin m.a. á að raunvextir hafi hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun og aðhald peningastjórnunarinnar hafi því aukist á sama tíma og útlitið í efnahagsmálunum hafi dökknað.

„Síðasta vaxtaákvörðun var 2. október sl. og ákvað nefndin þá að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Um var að ræða fjórðu vaxtalækkun bankans á þessu ári en vextir bankans hafa verið lækkaðir um samtals 1,25 prósentur frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í maí. Meginvextir bankans eru nú 3,25% og því umtalsvert svigrúm til lækkunar að mati Samtaka iðnaðarins.“

Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, segir í viðtali við Morgunblaðið í morgun að vísbendingar séu um að vaxtalækkanir Seðlabankans í ár hafi ekki skilað sér sem skyldi vegna takmarkaðrar útlánagetu bankanna.

„Seðlabankinn lækkar vexti til að örva eftirspurn í hagkerfinu og örva fjárfestingu. Ef það á hins vegar að raungerast þarf að vera framboð á fjármagni,“ segir Sigurður og bætir síðar við: „Ef þetta er raunin má segja að lánamarkaðurinn sé kjörbúð þar sem vöruverðið er að lækka en allar hillurnar eru tómar.“