*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 27. október 2019 10:33

Vilja frekari útvistun verkefna

Með umbótum á faggildingarsviði Hugverkastofu verður hægt að bjóða út fleiri verkefni ríkisins. Liður í einföldun regluverks.

Höskuldur Marselíusarson
Iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur bæði lagt fram frumvörp um einföldun laga og um takmarkaðri heimildir Samkeppniseftirlitsins síðustu vikuna.
Haraldur Guðjónsson

Ráðherrar atvinnuveganna hafa af stað áætlun um aðgerðir til einföldunar regluverki með afnámi yfir 1.000 reglugerða eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um. Næsta skref verður afnám 16 lagabálka með nýju bandormsfrumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra iðnaðar-, ferðamála og nýsköpunar en hún segir fjölmörg fleiri tækifæri vera til úrbóta.

Annað verkefni til að einfalda regluverkið eru breytingar á faggildingarsviði Hugverkastofu, sem tók við af Einkaleyfastofu í sumar. „Við viljum bæta sviðið svo við getum útvistað frekari verkefnum sem ríkið sinnir í dag, alveg eins og gert var með Bifreiðaskoðun ríkisins á sínum tíma,“ segir Þórdís Kolbrún sem vonast til þess að fleiri ráðuneyti sem og sveitarstjórnarstigið taki til við einföldun regluverks líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum.

„Við Kristján [Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] ákváðum einfaldlega að drífa í þessu og fara fram með góðu fordæmi, enda ekki algengt að Sjálfstæðisflokkurinn sé með báða ráðherrana sem halda utan um atvinnuvegina. Það er tilefni til úrbóta í öðrum ráðuneytum, enda víða alls konar reglufrumskógur, kröfur, skilyrði og gjöld og svo framvegis. Fjármálaráðuneytið er auðvitað langt á veg komið með verkefnið Stafræna Ísland, sem mun gera mögulegt að sinna öllum samskiptum við hið opinbera í gegnum eina gátt á netinu.

Það eru tækifæri víðar, til að mynda á sveitarstjórnarstiginu, en það er oft sem pirringur beinist út í ríkið vegna flækjustigs ýmiss konar, biðtíma, gjalda og krafna sem eru á hendi sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg er til að mynda ekki alveg eins og smurð vél fyrir atvinnulífið í borginni, þó auðvitað, ef það snýr að einhverri löggjöf, er það okkar í löggjafavaldinu að breyta því.“

Þórdís Kolbrún ræddi einnig um nýtt frumvarp um Samkeppniseftirlitið, sem hefur fengið mikla umræðu, en hún segist hafa búist við að svo yrði. Hún vilji hins vegar endurmeta breytingarnar sem gerðar voru eftir hrun og færa stofnunina í fyrra horf.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.