Gildi lífeyrissjóður, sem er fjórði stærsti eigandinn í HB Granda, með 8,62% hlut samkvæmt nýjustu upplýsingum vill fresta ákvörðun um kaup félagsins á útgerðarfélaginu Ögurvík. Kemur tilkynning sjóðsins í aðdraganda hluthafafundar HB Granda þriðjudaginn 16. október næstkomandi, en þar vill sjóðurinn fá eftirfarandi tillögu til meðferðar:

Skipun fjármálafyrirtækis til þess að meta fyrirhuguð kaup HB Granda hf. á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. og frestun ákvörðunar til framhaldsfundar. Vill sjóðurinn að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka meti viðskiptin þar sem HB Grandi hefur keypt allt hlutafé í Ögurvík ehf. og skilmála kaupanna. Þar með talið mat á því hversu vel rekstur Ögurvíkur fellur að rekstri HB Granda.

Sjóðurinn vill jafnframt fá rökstutt álit á því hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir HB Granda og hvort kaupverðið sé í samræmi við viðskipti milli óskyldra aðila. Stærsti eigandi HB Granda, Brim ehf. er sem kunnugt er einnig eigandi Ögurvíkur, en Guðmundur Kristjánsson eigandi Brim er nú forstjóri HB Granda.

Ef tillagan yrði samþykkt myndi ákvörðun um kaupin verða frestað til framhaldsaðalfundar sem haldinn væri 2. nóvember næstkomandi.