Stjórn Haga leggur til að stjórnarkjöri verði frestað á aðalfundi félagsins sem hefst klukkan níu í dag, þriðjudag.

Högum barst bréf frá Samkeppniseftirlitinu síðdegis í gær, mánudag, þar sem fram kom að ef Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður hjá LMB Mandat, næði kjöri til stjórnar félagsins kynni það að fela í sér brot á sátt Haga og Samkeppniseftirlitsins frá 11. september 2018 vegna kaupa Haga á Olíuverzlun Íslands. Eva Bryndís lét nýlega af störfum sem stjórnarformaður Olíudreifingar ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum. Þar er bent á að í 22. gr. sáttarinnar sé m.a. mælt fyrir um samkeppnislegt sjálfstæði stjórnar Haga og í 21. gr. um óhæði stjórnarmanna Olíudreifingar gagnvart Högum.

Eva Bryndís var ein þeirra sem tilnefningarnefnd Haga lagði til að yrði kjörin í stjórnina en skýrsla tilnefningarnefndar var birt þann 19. maí, fyrir þremur vikum.

Stjórn Haga mun eftir því á aðalfundinum að stjórnarkjöri verði frestað og að tilnefningarnefnd verði falið að hefja störf að nýju.

Sex voru eftir í framboði til stjórnar á fundinum um fimm sæti í stjórninni. Tilnefningarnefnd hafði lagt til að Davíð Harðarson, Eríkur S. Jóhannsson, Jensína Kristín Böðvarsdóttir og Katrín Olga Jóhannesdóttir tækju sæti í stjórninni auk Evu Bryndísar.

Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga, og forstjóri BL og Stefán Árni Auðólfsson lögmaður á LMB Mandat eru á útleið úr stjórn Haga. Erna hefur setið í stjórninni frá árinu 2010 og Stefán Árni frá árinu 2013.

Frambjóðendur til stjórnar Haga:

  • Davíð Harðarson, fjármálastjóri Nordic Visitor
  • Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippsins á Akureyri
  • Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður hjá LMB Mandat slf.
  • Jensína Kristín Böðvarsdóttir, ráðgjafi hjá Valcon consulting
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir, eigandi Kría konsulting ehf.
  • Rósalind Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vélsmiðju Guðmundar ehf.