Í dag var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum. Össur Skarphéðinsson er flutningsmaður tillögunnar.

Tillaga sama efnis var flutt á síðasta þingi en er nú endurflutt í breyttri mynd. Fram kemur í tillögunni að Ísland hafi ekki samning um fríverslun við Japan þótt viðskipti milli ríkjanna séu umtalsverð.

Samkvæmt Hagstofu Íslands hafi verðmæti útflutnings Íslands til Japans árið 2013 numið hálfum tólfta milljarði króna og þar af væri andvirði sjávarafurða næstum 8 milljarðar. Á sama tímabili hafi verðmæti innflutnings frá Japan til Íslands numið 8,5 milljörðum króna. Tölurnar sýni að mikill ávinningur væri af fríverslunarsamningi sem gerður væri á sama grunni og fyrri samningar Íslands um fríverslun sem jafnan byggðust á allgeru tollfrelsi við sjávarafurðir.