Sum af stærstu olíuframleiðsluríkjum heims eru nálægt því að semja um að frysta olíuframleiðslu til að hækka aftur verð á olíu. Orkumálaráðherrar fjölda ríkja á borð við Sádi Arabíu, Rússland, Venesúela og Írak hittast í Doha, höfuðborg Katar, í dag til að ræða stöðu mála og samkvæmt heimildum Financial Times munu þeir að öllum líkindum semja um að festa olíuframleiðslu við það stig framleiðslu sem var í janúar á þessu ári.

Verði af samningnum yrði það í fyrsta skipti í fimmtán ár sem viðlíka samráð á olíumarkaði næst. Framleiðslutakmörkunin myndi endast þar til í október en þá munu ráðherrarnir hittast aftur í Rússlandi og fara yfir stöðuna.

Í drögum að samningnum sem FT hefur undir höndum segir að olíuiðnaðurinn standi frammi fyrir alvarlegri áskorun í kjölfar einnar mestu lækkunar olíuverðs síðan árið 2008. "Það ríkir mikill vilji fyrir samræður og samstarf milli þessara framleiðsluríkja til að vinna bug á þessari miklu verðlækkun," segir í drögunum.