Samtök iðnaðarins sendu í morgun bréf þar sem þau óskuðu eftir fundi með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra vegna skaðlegra áhrifa gjaldeyrishaftanna á íslensk iðnfyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og á hraðvaxandi fyrirtæki á sviði nýsköpunar. Afrit af bréfinu var sent á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Tilefnið eru fréttir um að íslenskt iðnfyrirtæki, Promens, hyggist flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi. Í tilkynningu frá samtökunum segir að vonast sé til að fundurinn með fjármálaráðherra geti farið fram innan fárra daga.

Samtökin lýsa sig í bréfinu reiðubúin til samvinnu við stjórnvöld um að greina stöðu mála varðandi samkeppnishæfni alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, leggja mat á umfang þess skaða sem höftin hafa þegar valdið og ekki síst að útfæra mögulegar leiðir til að bæta stöðuna innan ásættanlegs tímaramma. SI leggja þunga áherslu á að sérstaklega verði hugað að aðstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi þegar tímasett og þrepaskipt áætlun um afnám hafta verði sett fram.

Haft er eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI að um sé að ræða enn eitt dæmið um alvarlegar afleiðingar þess að loka landinu með höftum. Raunveruleg merki sjáist nú um að samkeppnisstaða Íslands og möguleikar til uppbyggingar alþjóðlegra fyrirtækja í landinu séu í hættu. Promens sé eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins og það verði mikill missir af höfuðstöðvum þess úr landi. Slík fyrirtæki ættu að sjá sér hag í að stýra uppbyggingu sinni frá Íslandi. Því miður viti hann til þess að fleiri fyrirtæki, bæði stór og smá, sem starfa í alþjóðlegu umhverfi íhugi að flytja höfuðstöðvar sínar burt héðan. Þetta sé grafalvarleg staða og það sé ekki hægt að draga það lengur að bregðast við. Í