Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis óskaði eftir því á fundi nefndarinnar í morgun að stjórn Ríkisútvarpsins (RÚV) komi til fundar við nefndina til að fara yfir þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið í stofnuninni og þá stöðu sem af þeim leiðir. Á fundinum á jafnframt að fara yfir aðdraganda og forsendur aðgerðanna.

Í gær var 39 starfsmönnum RÚV sagt upp. Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði í tilkynningu sem hann sendi frá sér í gærmorgun að til standi að segja upp 60 manns vegna 500 milljóna króna sparnaðarkröfu sem gerð er á stofnunina. Þá verður fréttatímar styttir, þeim fækkað og dagskrárliðir felldir niður.

Í minnihluta allsherjar- og menntamálanefnd eiga sæti þau Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson og Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.