Harpan verður nýtt sem aðkomuhús fyrir gesti skemmtiferðaskipta og fyrir tollskoðun þeirra verði hugmyndir Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg að veruleika. Samtökin segja ekki bjóðandi erlendum farþegum skemmtiferðaskipa að koma inn við Sundahöfn, þar séu gámar og ólykt. Miklu nær væri að koma upp viðlegukanti fyrir skipin við Skúlagötuna með aðgengi inn í Hörpu. Gangi þetta eftir gefst færi á að hafa tónleika í Hörpunni yfir sumartímann og drýgja tekjur af húsinu. Samtökin segja bryggju við höfnina fyrir skemmtiferðaskipin geta bæði skapað skjól fyrir smábáta yfir sumartímann og sett skemmtilegan svip á strandlengjuna við Skúlagötu.

Í ályktun frá samtökunum segir m.a. að Íslendingar eigi langt í land með að skapa viðunandi aðkomu fyrir skemmtiferðaskipin og sé þjóðin langt á eftir öðrum í þessum málum og bent á að vart sé til svo fátækt ríki í Karabíska hafinu að þar sé ekki skemmtiferðaskipalægi alveg við miðbæi viðkomandi höfuðstaða. Þaðan sem gestir geti gengið í land, litið í söfn, skoðað áhugaverða staði, sótt tónlistarviðburði, litið inn á matsölustaði og verslað.

Þessu er ekki að skipta hér þar sem oftast sé boðið upp á hópferðir út úr borginni.