„Það hafa verið í gangi viðræður sem eru komnar það áleiðis að menn treystu sér til að fresta því að keyra þetta í lokafasa,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Morgunblaðið . Í gær var greint frá því að forsvarsmenn samninganefnda VR, LÍV, Flóabandalagsins, StéttVest og Samtaka atvinnulífsins hefðu náð samkomulagi um frestun verkfallsaðgerða . Aðgerðunum, sem áttu að hefjast á fimmtudaginn 28. maí, hefur nú verið frestað um fimm sólarhringa.

Greint er frá því í Morgunblaðinu að nú sé meðal annars uppi á borðum að gera kjarasamning til mun lengri tíma en upphaflega var áætlað, jafnvel til þriggja ára. Þá mun vera lögð áhersla á að samningurinn skili raunverulegri kaupmáttaraukningu á samningstímanum og að kjör tekjulægstu hópanna verði bætt meira en annarra. Samningsdrög verða kynnt samninganefndum stéttarfélaganna síðdegis í dag og í kvöld.