Amazon hefur opnað kassalausa matvöruverslun í Seattle sem byggir á hinni svokölluðu „Go" tækni sem fyrirtækið hefur hannað. Fyrirtækið hyggst selja þessa tækni til matvöruverslanakeðja en með tækninni er gengið sjálfvirkt frá greiðslu fyrir vörurnar í gegnum smáforrit um leið og fólk yfirgefur verslunina.

Amazon hefur áður opnað nokkrar minni verslanir sem byggja á þessari sömu tækni en tækniframfarir á sviði myndbandsupptökuvéla hafa gert fyrirtækinu kleift að opna lang stærstu verslunina hingað til, en nýja verslunin er tæplega 1000 fm að stærð. Hún er um fimm sinnum stærri en næst stærsta Amazon Go verslunin en Amazon telur að tæknin ráði við um 5000 fm af verslunarrými.

Líkt og fyrr segir vonast Amazon til að geta selt Go hugbúnaðinn til matvöruverslana og gerir fyrirtækið sér vonir um að nýja búðin í Seattle muni vekja athygli þeirra á tækninni.