Stjórn Sjóvá hefur gert tillögu um að félagið lækki hlutafé félagsins um tæplega 66,5 milljón krónur að nafnverði og boðað til hluthafafundar 19. október næstkomandi af því tilefni. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Samkvæmt tillögunni verður miðað við gengi á hlutum félagsins við lok viðskipta í gær, það er 37,6 krónur á hlut. Sökum þess yrði meira greitt út en sem samsvarar lækkunarfjárhæðinni eða 2,5 milljarðar króna í heild. Lækkunarfjárhæð umfram nafnvirði mun verða færð á yfirverðsreikning félagsins.

Leiðrétting Í upphaflegri frétt var fullyrt að við útgreiðslu yrði miðað við hluthafaskrá fimm viðskiptadögum fyrir hluthafafundinn. Hið rétta er að það sé fimm viðskiptadögum fyrir greiðsludag. Leiðréttist þetta hér með.

„Tilgangur hlutafjárlækkunarinnar er að laga fjármagnsskipan félagsins að gjaldþolsviðmiðum stjórnar en gjaldþolshlutfallið liggur nú fyrir ofan eftir mörk viðmiðanna,“ segir í tilkynningunni. Verði tillagan samþykkt mun félagið óska eftir undanþágu frá innköllunarskyldu hlutafélagalaganna. Við útgreiðsluna yrði miðað við hluthafaskrá við lok viðskipta fimm viðskiptadögum fyrir greiðsludag. Hluthafar hafa enn fremur rétt til að bera fram önnur mál til að ræða á fundinum fyrir kl. 10 að morgni 9. október næstkoamandi.

Sjóvá hagnaðist um 5,3 milljarða króna á síðasta ári og var samþykkt á aðalfundi ársins að greiða helming þeirrar fjárhæðar, það er 2,65 milljarða króna, til hluthafa í formi arðgreiðslu.